Námskeið
Eggert Pétursson – blómin, listin og veröldin sem hverfur
Kennari: Þröstur Helgason
Gestur: Eggert Pétursson
Eggert Pétursson (f. 1956) er einn sérstæðasti og í senn ástsælasti listamaður þjóðarinnar. Málverk hans af flóru Íslands sýna undraverð tök hans á viðfangsefninu um leið og þau endurspegla óvenjulega skýra listræna sýn sem höfðar með sterkum hætti til samtímans. Á námskeiðinu verður ferill Eggerts rakinn og verk hans skoðuð í listsögulegu, hugmyndalegu og samfélagslegu ljósi. Einnig verður rætt við listamanninn um þróun verka hans, vinnuferlið á bak við þau, áhrifavalda o.fl.
Ný bók um Eggert Pétursson verður á tilboðsverði fyrir þátttakendur námskeiðsins.
Námskeiðið fer fram í Gósku (Fenjamýri) mánudagskvöldin 5. og 12. febrúar 2024 kl. 20-22.
Léttar veitingar.
Verð 19.900 kr.
Mörg stéttarfélög veita styrki til félagsfólks vegna námskeiða fyrir allt að 90% námskeiðsgjalds. Kannaðu þinn rétt hjá þínu stéttarfélagi.
Um kennara:
Þröstur Helgason er með doktorspróf í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Hann er höfundur greinar um verk Eggerts Péturssonar í nýrri bók um listamanninn (KIND útgáfa, 2023). Nýjasta bók Þrastar er Opna svæðið. Tímaritið Birtingur og íslenskur módernismi (2020). Þröstur á að baki langa reynslu sem bókmenntagagnrýnandi og menningarblaðamaður og var um árabil ritstjóri Lesbókar Morgunblaðsins og dagskrárstjóri Rásar 1. Hann hefur verið stundakennari við Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands og skrifað í tímarit og bækur um bókmenntir, menningarsögu og myndlist, þar á meðal bók um Birgi Andrésson, myndlistarmann (Birgir Andrésson. Í íslenskum litum, 2010).